Tor-verkefnið (The Tor Project, Inc) var skráð sem bandarísk 501(c)(3) sjálfseignarstofnun árið 2006, en hugmyndin um “onion routing” þrepaendurbeiningu kom fram um miðjan níunda áratug síðustu aldar.
Rétt eins og notendur Tor, eru forritararnir, rannsakendurnir og styrktaraðilarnir sem hafa gert Tor mögulegt, ansi misleitur hópur af fólki. En eitt er sameiginlegt öllum þeim sem komið hafa að þróun Tor: það er trúin á að notendur internetsins eigi að hafa einkaaðgang að óritskoðuðum veraldarvef.
Á árunum eftir 1990 fór að koma í ljós hve öryggismálum á internetinu var áfátt, jafnframt því sem getan jókst til eftirlits og njósna um notendur, og árið 1995 fóru David Goldschlag, Mike Reed og Paul Syverson, sem störfuðu á U.S. Naval Research Lab (NRL), að spyrja sig hvort ekki væri einhver leið til að útbúa nettengingar þannig að ekki sæist hver væri að eiga samskipti við hvern, jafnvel þótt einhver væri að fylgjast með netkerfinu.
Þeirra svar var að þróa og nýta fyrstu rannsóknalíkönin og frumgerðir þess sem síðan er kallað "onion routing". Á íslensku mætti kalla þetta "þrepabeiningu".
Markmið slíkrar "onion routing" þrepabeiningar var að eiga leið til að nota internetið með eins mikilli leynd og mögulegt væri hvað varðar persónugreinanleg gögn; hugmyndin gekk út á að beina netumferð í gegnum fjölda netþjóna og dulrita hana á hverju þrepi leiðarinnar.
Þetta er enn í dag einfölduð leið til að útskýra hvernig Tor virkar.
Snemma eftir aldamótin 2000, hóf Roger Dingledine, nýútskrifaður frá Massachusetts Institute of Technology (MIT), vinnu við NRL 'onion routing' þrepabeiningarverkefni ásamt Paul Syverson.
Til að aðgreina þetta frumkvöðlaverkefni NRL frá öðrum 'onion routing' þrepabeiningarverkefnum sem farin voru að skjóta upp kollinum, kallaði Roger verkefnið 'Tor', sem var skammstöfunin á 'The Onion Routing'. Nick Mathewson, skólafélagi Roger frá MIT, gekk til liðs við hópinn skömmu síðar.
Alveg frá því hugmyndin um onion-þrepaendurbeiningu kviknaði á tíunda áratug síðustu aldar, hefur verið ljóst að styðjast þyrfti við dreift netkerfi en ekki miðlægt. Slíkt netkerfi þyrfti að vera rekið af mörgum aðilum með ólíka hagsmuni og misjafnt traust milli aðila. Hugbúnaðurinn þyrfti síðan að vera opinn og frjáls til að hámarka gagnsæi og dreifvinnslu.
Því gerðist það í október 2002 þegar Tor-netkerfið var sett í gang, að kóði þess var gefinn út undir frjálsu og opnu hugbúnaðarleyfi.
Í árslok 2003, samanstóð netkerfið af um það bil tólf sjálfboðaliðaendurvörpum, flestum í Bandaríkjunum, auk eins í Þýskalandi.
Við það að viðurkenna mikilvægi Tor fyrir hagsmuni stafrænna réttinda, fór Electronic Frontier Foundation (EFF) á árinu 2004 að styrkja vinnu Roger og Nick við Tor. Árið 2006 var Tor Project, Inc., bandarísk 501(c)(3) sjálfseignarstofnun án ágóðamarkmiða, stofnuð til að styðja við þróun Tor.
Árið 2007 byrjuðu samtökin að þróa brýr fyrir Tor-netkerfið til að takast á við ritskoðun, eins og t.d. þörfina til að komast framhjá eldveggjum ríkisstjórna, með það að markmiði að notendur sem búa við slíkt geti samt fengið aðgang að hinum opna veraldarvef.
Tor fór að verða vinsælt meðal aðgerðasinna og tæknilega þenkjandi notenda með áhuga á friðhelgi og gagnaleynd, en áfram var erfitt fyrir fólk með minni tækniþekkingu að nýta sér kerfið, þannig að árið 2005 hófst þróun á ýmsum verkfærum sem teygðu sig lengra en Tor-milliþjónarnir höfðu sinnt.
Þróun Tor-vafrans hófst árið 2008.
Með því að Tor-vafrinn hafði gert Tor aðgengilegra fyrir venjulega netnotendur og aðgerðasinna, þá verður Tor mikilvægt verkfæri þegar arabíska vorið hófst síðari hluta árs 2010. Ekki aðeins sá Tor um að vernda auðkenni fólks á netinu, heldur veitti þeim aðgang að mikilvægum upplýsingum, samfélagsmiðlum og vefsvæðum sem lokað hafði verið á.
Þörfin fyrir verkfæri sem vernda gegn fjöldaeftirliti varð síðan augljós eftir uppljóstranir Snowdens árið 2013.
Ekki einungis reyndist Tor ómetanlegt við að koma uppljóstrunum Snowdens á framfæri, heldur staðfesti efni skjalanna einnig þær fullyrðingar, á þeim tímapunkti, að ekki sé hægt að brjótast inn í Tor.
Meðvitund fólks um skráningu, eftirlit og ritskoðun á netinu gæti hafa aukist, en hið sama mætti líka segja um fjolda þeirra hindrana sem koma í veg fyrir raunverulegt frelsi einstaklinga í hinum stafræna heimi.
Í dag er Tor-netkerfið með þúsundir endurvarpa sem reknir eru af sjálfboðaliðum og milljónum notenda um víða veröld. Og það er þessi fjölbreytileiki sem heldur notendum Tor öruggum.
Við í Tor-verkefninu, berjumst fyrir því alla daga að allir eigi að hafa einkaaðgang að óritskoðuðum veraldarvef, og er Tor því orðið að heimsins öflugasta verkfæri fyrir nafnleysi og frelsi á netinu.
En Tor er meira en bara hugbúnaður. Það er ávöxtur ástríðufullrar vinnu alþjóðlegs samfélags fólks sem helgar sig baráttu fyrir mannréttindum. Tor-verkefnið er tileinkað fullkomnu gagnsæi og öryggi fyrir notendur þess.